Pistlar og fleira
  • Heim
  • Meira um mig
  • Pistlar í Sunnlenska
  • Pistlar um pólitík
  • Menntamál
  • Á móti sól
  • Lögin mín
  • Nýjasti pistillinn

Picture
Haustið 1995 stofnaði ég hljómsveit á Selfossi ásamt Þóri Gunnarssyni stórvini mínum og bassaleikara. Í mars 1996 byrjuðum við að spila á böllum og þá fæddist nafnið. á þessum tíma var soul tónlistin allsráðandi hjá íslenskum sveitaballahljómsveitum - og hafði verið of lengi að mínu  mati - og þessvegna var ákveðið að ekkert svoleiðis drasl yrði á okkar efnisskrá. Nafnið kviknaði upp úr þeirri umræðu. Á móti soul, sem varð seinna það sama kvöld að Á móti sól. Við vorum á móti sóltónlist og um leið á móti öllum „sólarböndunum" sem höfðu sprottið upp eins og gorkúlur í kjölfar vinsælda SSSólar og Sólstrandargæjanna. Nafnið snerist ótrúlega fljótt í höndunum á okkur.

Til að gera langa sögu stutta þá hefur hljómsveitin verið starfandi svo að segja óslitið síðan við spiluðum á okkar fyrsta balli, í mars 1996. Hljómsveitin gekk í gegnum smá mannabreytingar fyrstu árin, en frá því í september 1999 hefur skipanin verið óbreytt - og mun ekki breytast. 

Við höfum verið ansi lánsamir á löngum ferli. Af átta plötum okkar hafa fjórar náð sölu í yfir 5000 eintökum, sem þýðir gullsala á Íslandi. Ein platan gerði reyndar enn betur og fór vel yfir 10 þúsund eintök, sem er platínusala.

Þá hefur okkur líka gengið vel að fá fólk á böllin hjá okkur, en það er ekki sjálfgefið að þetta tvennt fari saman. Eins hafa mörg lögin okkar náð miklum vinsældum. Fyrir þetta allt saman erum við þakklátir.

Þrátt fyrir þessa velgengni okkar vöðum við ekki í peningum. Við höfum eytt ótrúlegum upphæðum í upptökur og allskonar snurfus í kringum plöturnar okkar og þótt helmingur platnanna hafi selst vel þá hefur hinn helmingurinn ekki selst eins vel. En það er allt í lagi, við erum að þessu til þess að hafa gaman af þessu - og auðvitað líka til þess að fá smá aukapening í vasann. Það skemmtilegasta sem við gerum er að búa til tónlist og við höfum hingað til ekki viljað spara neitt við þá vinnu. 

Við erum allir mjög góðir vinir og það er aldrei dauður punktur í rútuferðunum. Ekki skemmir að flestir ef ekki allir sem við höfum unnið með á þessum rúmlega 15 árum eru stórskemmtilegir snillingar. Hver á sinn hátt. 

Hljómsveitin á lénið amotisol.is, en það hefur ekki verið virkt í nokkur ár. Hinsvegar erum við duglegir á Facebook. 

Við vorum líka einu sinni með bloggsíðu. Hún er ennþá til þótt hún sé aldrei uppfærð. Það er dálítið af skemmtilegu efni þar. Myndbönd, myndir, lög, textar og fleira krúttlegt.

Þetta var stutta útgáfan. Þeir sem nenna ekki að lesa meira geta stoppað hér. Hinir halda ótrauðir áfram.

Árið 1997 gáfum við út okkar fyrstu plötu. Hún heitir hinu undarlega nafni Gumpurinn og inniheldur m.a. lag með frönskum texta sem heitir Le Gump. Okkur þótti þetta sniðugt á sínum tíma. Við vorum nokkurn veginn ein um það. 

Picture
Hljómsveitin er þannig skipuð á plötunni: Ég, Þórir, Björgvin Jóhann Hreiðarsson, Sæmundur Sigurðsson, Ingólfur Þorvaldsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir. Fljótlega eftir að platan kom út hætti Ingólfur í bandinu og stöðu hans tók Stefán Ingimar Þórhallsson sem þá var nýhættur í Sólstrandargæjunum. Stefán er enn á bak við trommusettið hjá okkur.

Tvö lög af Gumpnum fengu spilun í útvarpi. Fyrra lagið var Reykjavíkurborg eftir Jóhann Helgason sem Þú og Ég höfðu gert vinsælt mörgum árum áður. Seinna lagið var minn fyrsti smellur (Djöfull er ég) Flottur. 

Flottur varð mjög vinsælt sumarið 1997 og allt það ár spiluðum við á böllum um allt land til þess að borga útgáfu plötunnar, en platan seldist ekki nema í nokkur hundruð eintökum sem var ekki nándar nærri nóg til að standa undir kostnaði. Þetta ár komum við í fyrsta sinn fram á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Það var mikill áfangi. 

Árið 1998 urðu aftur mannabreytingar í hljómsveitinni þegar Jóhanna Ýr og Sæmundur hættu bæði í tónlist. Enginn kom í stað Jóhönnu, en skarð Sæmundar fyllti fyrst um sinn gítarhetjan Ómar Guðjónsson, en hann féllst á að spila með okkur þar til við fyndum framtíðarmann í starfið. Í mars 98 fannst sá maður, en það var Sævar Þór Helgason sem enn þann dag í dag er gítarleikari hljómsveitarinnar.  

Hljómsveitin sendi frá sér tvö lög þetta ár. Hið fyrra var Á þig og seinna lagið var Stelpur. Bæði lögin eru eftir mig og þau eru bæði í svokölluðum SKA-takti, sem við vorum afar hrifnir af á þessum tíma. Lögin urðu bæði nokkuð vinsæl. Sérstaklega Á þig. 

Árið 1999 var aftur ráðist í að gefa út plötu. Sú plata hét því frumlega nafni 1999. Vinsælasta lag plötunnar var lagið Sæt, sem ég samdi í rútuferð norður í land. 

Haustið 1999 varð síðan síðasta mannabreytingin á bandinu þegar Björgvin Jóhann hætti sem söngvari og Magni tók við. Björgvin hafði tilkynnt okkur ákvörðun sína fyrr um sumarið og við höfðum leitað hér og þar án árangurs. Það var svo í einhverri rútuferðinni sem einhver mundi eftir síðhærðum skratta á Egilsstöðum sem hafði sungið déskoti vel í söngkeppni framhaldsskólanna. Ég hringdi í eina manninn sem ég vissi einhver deili á fyrir austan og spurðist fyrir um kauða. það kom upp úr dúrnum að sá sem ég hringdi í var einmitt í hljómsveit með Magna. Hljómsveitin var að hætta og allir að fara suður í skóla, nema Magni sem ætlaði að halda áfram að vinna í bakaríinu á Egilsstöðum. Ég fékk númerið hjá Magna, hringdi í hann og bað hann að fljuga suður til fundar við okkur. Viku seinna söng hann á sínu fyrsta balli með okkur.

Fyrir jólin 1999 gáfum við út jólalagið Þegar jólin koma. Því var vel tekið og er alltaf spilað töluvert í útvarpi um jólaleytið.

Árið 2000 sendum við frá okkur 3 lög. Fyrsta lagið var Vertu hjá mér sem kom út á safnplötunni Svona er sumarið. Annað lagið var endurgerð lagsins Ekkert mál sem Grýlurnar gerðu miklu betur en við í kvikmyndinni Með allt á hreinu. Það lag kom út á safnplötunni Óður til kvikmyndar. Þriðja lagið var síðan þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja það árið, en það heitir Í Vestmannaeyjum og er eftir mig. 

Árið 2001 var ansi stórt ár í sögu hljómsveitarinnar. Í febrúar sendum við frá okkur lagið Spenntur, eftir Einar Bárðarson vin okkar og félaga frá Selfossi. Lagið varð fyrsta topplagið okkar, en áður höfðu Flottur og Á þig hæst náð 6. og 8. sæti íslenska listans. Í kjölfar vinsælda lagsins fór ýmislegt skemmtilegt af stað. Við vorum munstraðir í Bylgjulestina sem ferðaðist um landið þá um sumarið og Sena og Japis kepptust um að fá okkur til að skrifa undir plötusamning. Svo fór að við skrifuðum undir fimm platna samning hjá Senu.

Picture
Fyrsta plata okkar sem kom út undir merkjum Senu heitir ÁMS og átti upphaflega að koma út 11.september 2011. Útgáfunni var frestað fram í október. Platan er stútfull af smellum, en 8 af 11 lögum plötunnar urðu vinsæl eða mjög vinsæl í útvarpi. Platan seldist hinsvegar ekkert sérstaklega vel. 

Árið 2002 sendum við frá okkur 2 lög. Hið fyrra var forvarnarsmellurinn Keyrðu mig heim eftir Einar Bárðarson og hið síðara var endurgerð lagsins Heilræðavísur Stanleys eftir Eggert Þorleifsson, sem betur er þekkt sem Lítil typpi lengjast mest. Það lag gerðum við ásamt þeim Pétri Jóhanni Sigfússyni og Dodda Litla sem þá voru með vinsælan útvarpsþátt á FM957 sem hét Ding Dong. Bæði lögin komu út á safnplötunni Svona er sumarið. 

Picture
Árið 2003 kom önnur plata okkar undir merkjum Senu út. Hún seldist vel þá um sumarið og okkur reiknast til að hún hafi frá því hún kom út selst í meira en 5000 eintökum, sem er gullsala á Íslandi. Vinsælustu lög plötunnar voru Einveran eftir Magnús Þór Sigmundsson, Allt eftir Einar Bárðarson og Drottningar eftir okkur strákana, við texta eftir Selfyssinginn Sigurð Fannar Guðmundsson. Á vormánuðum 2003 fórum við til London ásamt Guðjóni Jónssyni og Guðna Halldórssyni kvikmyndamógúlum og Birgi Erni rótara og skurðhjúkrunarfræðingi til að taka upp myndband við lagið Drottningar. Ferðin var erfið, en gríðarlega skemmtileg og þarna kviknaði ást mín á London, sem ég var að heimsækja í fyrsta sinn. Síðan þá hef ég komið svo oft þangað að ég hef varla tölu á því og skemmti mér alltaf jafn vel. Nema kannski í júlí 2005 þegar sprengjurnar sprungu í neðanjarðarlestunum og í strætó. Það var heldur óskemmtileg reynsla, en óneitanlega eftirminnileg.

Picture
Árið 2004 var í meira lagi viðburðarríkt. Snemma árs sendum við frá okkur lagið Langt fram á nótt sem varð sæmilega vinsælt í útvarpi. Á vormánuðum vorum við boðaðir á fund í höfuðstöðvum Senu þar sem okkur var tjáð að ekki væri óskað eftir því að við gerðum fleiri plötur undir merkjum fyrirtækisins. Skýringin var að mat manna þar á bæ væri að ný plata með okkur væri ekki vænleg söluvara. Okkur þótti þetta dálítið undarlegt því fyrri plata okkar sem Sena gaf út hafði selst í milli 2 og 3000 eintökum, á tíma sem plötusala var almennt mjög dræm og seinni platan hafði farið í um það bil 5000 eintökum að sumri til. En svo fór sem fór og 5 platna samningurinn heyrði skyndilega sögunni til.

Við höfðum ætlað að kynna hugmynd fyrir Senumönnum á þessum fundi, enda var efni fundarins að ræða framhaldið. Hugmyndin var að gera plötu með uppáhalds íslensku lögunum okkar - í okkar búningi. Fundurinn þróaðist síðan þannig að við viðruðum þá hugmynd ekki. Við réðumst síðan sjálfir í það verkefni að gera plötu með okkar uppáhaldslögum. 12 íslensk topplög var gripurinn nefndur og það er skemmst frá því að segja að platan sló algerlega í gegn. Hún seldist upp fyrir jólin og fór að lokum í um það bil 13 þúsund eintökum.  Þá var gaman að lifa.  

Picture
Um sumarið fórum við í pílagrímsferð til Liverpool. Þar skoðuðum við auðvitað Anfield Road, heimavöll Liverpool en aðalerindið var að spila tvenna tónleika á hinum fornfræga Cavern Club, þar sem Bítlarnir héldu óteljandi tónleika í upphafi ferils síns. Þetta ferðalag var mikið ævintýri, en eftir stendur að við spiluðum tvenna mjög vel heppnaða tónleika og vorum beðnir um að framlengja dvöl okkar í borginni. Það reyndist ekki mögulegt í þetta skiptið, en við eigum þarna inni heimboð sem við þekkjumst vonandi þótt síðar verði. Magnaður staður.

Picture
Árið eftir gerðum við framhaldsplötu.  Hin 12 topplögin. Þar var restin af lögunum sem okkur langaði að endurgera. Platan kom út um sumarið og náði gullsölu. 

Árið 2006 var nokkuð merkilegt ár. Snemma árs sendum við frá okkur lagið Hvar sem ég fer, sem ég samdi haustið áður. Lagið varð fljótlega mjög vinsælt og í apríl var það komið á topp allra helstu vinsældalista landsins. Í júní hófst síðan Rockstar ævintýri Magna og öll lætin í kringum það urðu til þess að lengja líftíma lagsins, sem var þegar árið var gert upp mest spilaða lag ársins á stærstu útvarpsstöðvunum. 

Picture
Þegar Magni kom heim frá L.A. ætlaði allt um koll að keyra og við héldum tónleika og dansleiki út um allt land fyrir fullu húsi. Við höfðum ætlað að gefa út plötu með frumsömdu efni fyrir jólin, en það var svo brjálað að gera hjá Magna eftir heimkomuna að það var ekki viðlit að klára plötuna, þótt við værum nokkuð langt komnir með hana. Því varð úr að við gáfum út safnplötu með okkar vinsælustu lögum, að viðbættum þremur nýjum lögum og enskri útgáfu lagsins Þegar tíminn kemur eftir mig og Magna, sem kom út á plötunni Fiðrildi. Nýju lögin voru Hvar sem ég fer og Hver einasti dagur sem bæði eru eftir mig og Ljúgðu að mér sem er eftir Magna. Auk þess fengu elstu lögin;Sæt og Flottur smá yfirhalningu. 

Árið 2007 var frekar rólegt hjá okkur. Við sendum að vísu frá okkur lagið Árin, sem er eftir mig í janúar og það varð mjög vinsælt fram á vorið. Síðsumars sendi Magni frá sér sína fyrstu sólóplötu og við héldum okkur til hlés á meðan. Í ágúst kom Toby Rand félagi Magna úr Rockstar þáttunum til landsins og spilaði með okkur á Þjóðhátíð í Eyjum og á Gauknum. Það var gríðarlega skemmtilegt, enda Toby og Tommy vinur hans sem einnig var með í för með skemmtilegri mönnum. 
Sumarið 2008 fórum við í annað sinn til Lundgård í Danmörku, þar sem við höfðum byrjað að taka upp væntanlega plötu okkar sumarið 2006. Magnalausir. Ferðin var ákaflega skemmtileg enda Lundgård algjör eðalstaður. Við tókum nokkur símavideo í þeirri ferð og á gömlu bloggsíðunni okkar er ennþá hægt að skoða þau. Þegar við komum heim frá Lundgård héldum við áfram að nostra við lögin í hljóðverum hérna heima. Það var síðan í byrjun október sem gripurinn var að verða tilbúinn og komið að því að senda afraksturinn til útlanda í fjöldaframleiðslu að hrunið skall á. Það varð til þess að við ákváðum að fresta útgáfu plötunnar um eitt ár.

Picture
Árið 2009 kom áttunda platan okkar síðan loksins út eftir langa og stundum erfiða fæðingu. Platan heitir því frumlega nafni 8, sem er ekki aðeins vísun í hið augljósa heldur einnig í óendanleikann, eilífa vináttu, vaxandi hamingju o.s.frv. Platan inniheldur 11 lög, þar af eru 4 eftir mig; Sé þig seinna, Ef þú ert ein, Verst að ég er viss og Árin. Aukinheldur á ég texta við lögin Dagarnir og Ég mun aldrei vita af því, en þau lög eru eftir Sævar.

Árið 2010 var ansi viðburðasnautt því við vorum eiginlega alveg búnir á því eftir að hafa eytt síðustu árum í að taka upp - og ekki síður að borga - plötuna sem loksins var komin út. Við tókum okkur langþráð frí og spiluðum sama og ekki neitt allt þetta ár.

2011 vöknuðum við til lífsins og sendum frá okkur nýtt lag. Það heitir Ég veit ekki hvar ég er og er eftir Sævar og mig. Lagið að mestu eftir Sævar og textinn að mestu eftir mig - það sem út af stendur sameign, eins og svo margt hjá okkur Sævari. 

2012 var einnig frekar tíðindalítið. Við spiluðum að vísu þónokkur gigg, en gáfum ekkert út. Við ætlum að ráða bót á því á þessu ári. 

Proudly powered by Weebly